Reglur og skilmálar

Viðskiptavinir

Lögum samkvæmt þurfa þeir sem fjárfesta í sjóðum í rekstri Arctica sjóða að veita ýmsar upplýsingar.

Arctica sjóðir hafa sett sér reglur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og gereyðingarvopna, er leitast við að uppfylla í hvívetna ítrustu kröfur sem gerðar eru til rekstraraðila sérhæfðra sjóða um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Nýir viðskiptavinir

Rekstraraðilum sérhæfðra sjóða, líkt og lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum, ber að framkvæma áreiðanleikakönnun vegna peningaþvættis á viðskiptavinum. Starfsmenn Arctica sjóða afla upplýsinga við upphaf viðskipta og reglulega meðan á viðskiptasambandi stendur. Meðal gagna sem afhenda ber eru upplýsingar um eignir og uppruna þeirra, staðfest ljósrit af persónuskilríkjum (t.d. vegabréf, ökuskírteini eða rafræn skilríki) og í tilviki eignarhaldsfélaga og fyrirtækja þarf að auki að skila upplýsingum um framkvæmdastjóra, prókúruhafa sem og hverjir eru raunverulegir eigendur í skilningi laga.

Aðgerðir gegn peningaþvætti

Sú lagaskylda hvílir á Arctica sjóðum að gera sitt ítrasta til að hindra að rekstur, starfsemi félagsins eða sjóða í rekstri þess verði notuð til að þvætta fjármuni eða til að fjármagna hryðjuverk. Arctica sjóðir hafa sett sér reglur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og gereyðingarvopna, en með þeim leitast Arctica sjóðir við að uppfylla í hvívetna ítrustu kröfur sem gerðar eru til rekstraraðila sérhæfðra sjóða um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Hluti af skyldu Arctica sjóða er að þekkja deili á fjárfestum sjóða í rekstri og starfsemi þeirra og því ber félaginu að gera áreiðanleikakönnun á fjárfestum, sem Arctica sjóðir uppfylla m.a. með því að afla upplýsinga frá fjárfestum.

Meðferð kvartana og réttarúrræði

Komi upp ágreiningur milli viðskiptavinar og Arctica sjóða getur viðskiptavinur sent félaginu kvörtun. Með kvartanir er farið samkvæmt almennum starfsreglum Arctica sjóða um meðferð kvartana. Kvörtun er hægt að bera fram með ýmsum hætti, s.s. með tölvupósti (arcticasjodir@arcticasjodir.is), bréfleiðis, með símtali eða á fundi.

Stefna Arctica sjóða er að tryggja að kvartanir og önnur sambærileg erindi fái skjóta, skilvirka og sanngjarna afgreiðslu. Í því felst m.a. að:

  • Móttaka kvörtunar sé staðfest og upplýsingar veittar um meðhöndlun hennar.
  • Kvörtun sé svarað skriflega, eða með sambærilegum hætti og hún barst, svo fljótt sem kostur er eða eigi síðar en innan fjögurra vikna. Reynist ekki unnt að svara kvörtun innan framangreindra tímamarka skal sá er kom kvörtun á framfæri upplýstur um töfina, ástæður hennar og hvenær svars sé að vænta.
  • Aflað sé allra nauðsynlegra upplýsinga og gagna um kvörtun og þau metin á hlutlægan hátt. Sé kvörtun viðskiptavinar óskýr þannig að ekki er ljóst hvernig skuli bregðast við henni skulu Arctica sjóðir óska eftir nánari upplýsingum frá þeim sem kvartar.
  • Upplýsingar séu veittar viðskiptavinum á skýran og skilmerkilegan máta.
  • Afstaða Arctica sjóða sé rökstudd skriflega ef kvörtun viðskiptavinar er ekki að fullu tekin til greina og upplýsingar veittar um réttarúrræði.

Í almennum starfsreglum Arctica sjóða segir um meðferð kvartana viðskiptavina:

Starfsfólk Arctica sjóða skal bjóðast til að ræða við viðskiptavin sem kvartar, en það skal þó ekki vera skilyrði fyrir móttöku kvörtunar af hálfu viðskiptavinar. Viðskiptavini skal gerð grein fyrir að hann geti ávallt beint kvörtun sinni strax til framkvæmdastjóra félagsins eða regluvarðar. Ef viðskiptavinur er ekki ánægður með úrlausn Arctica sjóða skal viðskiptavini bent á að hann geti beint kvörtun til úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála eða leitað til dómstóla. Kvörtun má draga til baka á hvaða stigi sem er. Mál fellur niður ef Arctica sjóðir og viðskiptavinur ná samkomulagi um lausn þess. Hægt er að fá frekari upplýsingar um úrskurðaraðila og málsmeðferðarreglur á heimasíðu Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Tryggja skal rétta meðhöndlun persónulegra upplýsinga og hættu á hagsmunaárekstrum með aðgangsstýringum.

Upplýsinga- og leiðbeiningarþjónusta Fjármálaeftirlitsins

Fjármálaeftirlitið leiðbeinir viðskiptavinum eftirlitsskyldra aðila í samræmi við leiðbeiningarskyldu stjórnvalda. Sjá nánari upplýsingar á vef Fjármálaeftirlitsins.

Lagalegur fyrirvari

Upplýsingar á þessum vef Arctica sjóða eru unnar af starfsfólki félagsins. Upplýsingarnar eru veittar í upplýsingaskyni eingöngu, en skulu ekki nýttar á þeirri forsendu að um sé að ræða ráðleggingar eða ráðgjöf vegna viðskipta með eða fjárfestinga í fjármálagerningum eða öðru. Fjárfestar eru eindregið hvattir til að leita ráðlegginga eigin ráðgjafa, s.s. vegna lagalegrar eða skattalegrar stöðu sinnar, áður en nokkurs konar fjárfestingar eru gerðar.

Arctica sjóðir vinna með upplýsingar frá upplýsingaveitum, útgefendum verðbréfa og ráðgjöfum sem félagið telur áreiðanlegar. Arctica sjóðir ábyrgist þó ekki áreiðanleika eða nákvæmni slíkra upplýsinga og ber enga ábyrgð á áreiðanleika upplýsinga sem stuðst er við. Skoðanir eða túlkanir sem fram koma á heimasíðunni eru byggðar á opinberum upplýsingum sem aflað er á þeim tíma sem þær eru skrifaðar og gætu því breyst án fyrirvara. Sérstök athygli er vakin á því að áætlanir og spár geta breyst fyrirvaralaust á jákvæðan og neikvæðan hátt og eru háðar utanaðkomandi óvissu og breytum sem gjarnan eru ekki á valdi Arctica sjóða.

Arctica sjóðir ábyrgjast ekki að gera breytingar á þeim upplýsingum sem birtar eru á heimasíðunni ef forsendur þeirra breytast eða ef í ljós kemur að þær eru rangar eða ónákvæmar.

Hvorki Arctica sjóðir né stjórnendur eða starfsmenn félagsins bera ábyrgð á beinu eða óbeinu tjóni sem hlýst af notkun á vef fyrirtækisins eða upplýsingum sem er að finna á heimasíðu fyrirtækisins eða tjóni sem rekja má til þess að ekki er hægt að nota vefinn, um skemmri eða lengri tíma. Rísi ágreiningur út af upplýsingum sem rekja má til heimasíðu þessarar, skal slíkur ágreiningur leystur samkvæmt íslenskum lögum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Arctica sjóðir á allan höfundarrétt að upplýsingum á heimasíðunni. Óheimilt er með öllu að dreifa þeim upplýsingum sem finna má á heimasíðunni eða nýta þær með öðrum hætti án heimildar Arctica sjóða.

Meðferð tölvupósts

Tölvupóstur og viðhengi hans sem starfsfólk Arctica sjóða sendir út fyrir fyrirtækið geta innihaldið trúnaðarupplýsingar og er eingöngu ætlaður þeim sem hann er stílaður á. Óheimil meðferð tölvupósts og viðhengja hans getur varðað skaðabóta- og refsiábyrgð lögum samkvæmt, auk þess sem viðtakanda ber samkvæmt gildandi fjarskiptalögum að tilkynna sendanda hafi tölvupósturinn eða viðhengi hans ranglega borist honum. Vinsamlegast eyðið póstinum og viðhengjunum í slíkum tilvikum. Efni tölvupóstsins og viðhengja er á ábyrgð sendanda ef það tengist ekki starfsemi Arctica sjóða.