Fjármálagerningar fela í sér mismunandi áhættu og áður en tekin er ákvörðun um fjárfestingu er mikilvægt að kynna sér eðli viðkomandi fjármálagernings og áhættur tengdar honum. Lögð er áhersla á að fjárfestar gangi ekki til viðskipta með fjármálagerninga nema þeir geri sér fulla grein fyrir þeirri áhættu sem felst í slíkum viðskiptum og að teknu tilliti til fjárhagslegs styrks og reynslu af slíkum fjárfestingum.
Þegar lagt er mat á hvort fjármálagerningur henti fjárfesti verður að hafa eftirfarandi í huga:
Áhætta skuldabréfasjóða
Verðmæti skuldabréfa getur lækkað sem og hækkað, en almennt ekki í sama mæli og verðmæti hlutabréfa. Sveiflur í virði skuldabréfa geta þó orðið fyrirvaralaust og leitt til þess að þau falli verulega í verði.
Markaðsáhætta fylgir öllum fjármálagerningum og vísar til þeirra áhrifa sem hugsanlegar breytingar á gengi fjármálagerninga geta haft á gengi sjóðsins. Fjármálagerningar í eðli sínu sveiflast í verði og getur gengi þeirra bæði hækkað sem og lækkað sem skilar sér í markaðsáhættu fyrir eigendur sjóðsins. Væntingar um þróun verðbólgu eða stýrivaxta Seðlabanka Íslands hafa meðal annars áhrif á verð skuldabréfa.
Breytingar á efnahagsástandi geta einnig haft áhrif á gengi skuldabréfa sem og náttúruhamfarir. Auk þess geta breytingar á markaðsaðstæðum haft áhrif á gengi skuldabréfa, s.s. væntingar fjárfesta um horfur varðandi rekstur og almennan efnahag, sveiflur í gjaldmiðlum, verðbólguþróun, vaxtaþróun hverju sinni og markaðsaðstæður á verðbréfamörkuðum. Þróun vaxta til lengri tíma hefur einnig áhrif á gengi skuldabréfa og kemur slík þróun oft fram með skýrari hætti í virði skuldabréfa en hlutabréfa. Lánshæfismöt útgefenda skuldabréfa hafa einnig áhrif á gengi skuldabréfa, en slík lánshæfismöt eru almennt tengd greiðsluhæfi, rekstrarhorfum og efnahagsreikningum útgefenda og efnahagshorfum viðkomandi ríkis.
Vaxtaáhætta
Vaxtabreytingar hafa almennt áhrif á virði skuldabréfa þannig að hækkun á markaðsvöxtum þýðir alla jafna lægra verð skuldabréfa og öfugt. Skuldabréf sveiflast þannig í verði vegna breytinga á ávöxtunarkröfu til þeirra. Þegar ávöxtunarkrafa hækkar lækkar verð skuldabréfa. Því lengri sem lánstími skuldabréfa með föstum vöxtum er, þeim mun næmari eru skuldabréfin fyrir hækkun markaðsvaxta.
Útgefandaáhætta
Sú áhætta að útgefandi verðbréfa eða mótaðili greiði ekki á gjalddaga. Útgefandi skuldabréfa getur orðið ófær, tímabundið eða varanlega, um að greiða vexti eða höfuðstól skuldabréfs. Gjaldfærni útgefanda getur breyst eftir almennri efnahagsþróun og/eða vegna breytinga sem tengjast rekstri útgefandans eða atvinnugrein hans, og/eða pólitískum aðstæðum sem hafa í för með sér efnahagslegar afleiðingar. Ef sjóðstreymi versnar hjá útgefanda getur það haft bein áhrif á gengi fjármálagerninga sem hann gefur út. Á sama hátt getur lánshæfismat útgefanda tekið breytingum vegna jákvæðrar og/eða neikvæðrar þróunar í starfsemi útgefanda.
Sveiflur á gengi skuldabréfa geta tengst rekstri útgefanda, þ.e. að virði skuldabréfa sveiflist í takt við nýjar upplýsingar sem tengjast rekstri útgefanda og greiðsluhæfi hans, samkeppnisaðila hans eða viðkomandi atvinnu- eða starfsgrein.
Jafnvel þó að tilteknar tryggingar og skilmálar séu til staðar til þess að auka líkur á því að viðkomandi útgefandi geti greitt viðkomandi skuld til baka þá er ávallt möguleiki á að svo verði ekki þegar á reynir. Tryggingar kunna að lækka í virði eða af einhverjum ástæðum kunna þær að vera ekki til taks þegar á reynir við fullnustu vegna vanefnda útgefanda. Getur það leitt til þess að höfuðstóll viðkomandi skuldar verði ekki greiddur til baka að hluta til eða öllu leyti. Sama á við um áfallna vexti eða verðbætur á viðkomandi skuld.
Ekki er um tæmandi talningu að ræða og geta aðrir þættir en hér eru upp taldir haft áhrif á verðmæti viðkomandi fjármálagernings.
Áhætta hlutabréfasjóða
Hlutabréf eru að öllu jöfnu áhættusamari en skuldabréf. Sú áhætta er einkum fólgin í því að verð á hlutabréfum sveiflast meira en verð skuldabréfa. Fjárfesting í hlutabréfum getur þó verið arðsamari en fjárfesting í skuldabréfum þegar til lengri tíma er litið og kemur ávöxtunin fram með tvennum hætti. Í fyrsta lagi birtist hún sem breyting á verði eða gengi viðkomandi hlutabréfa og í öðru lagi geta eigendur hlutafélaga átt von á því að fá greiddan arð af hlutabréfaeign sinni. Með því að dreifa hlutabréfaeign sinni með kaupum í mörgum ólíkum fyrirtækjum er hægt að draga verulega úr þeirri áhættu sem tengd er einstökum hlutafélögum.
Fyrirtækjaáhætta
Með kaupum á hlutabréfum verður fjárfestir eigandi í hlutafélagi ásamt öðrum hluthöfum. Hluthafi getur því tekið, sem eigandi, þátt í þróun félagsins og þeim breytingum sem verða á eignum og skuldum þess. Það er erfitt að áætla þá ávöxtun sem hluthafi getur vænst af fjárfestingu sinni. Við gjaldþrot getur hluthafi tapað öllu því fé sem hann lagði fram í upphafi þar sem hluthafar njóta ekki forgangs þegar kemur að lýstum kröfum í þrotabúið.
Verðáhætta
Verð hlutabréfa getur hækkað og/eða lækkað án þess að hægt sé að sjá slíkar sveiflur fyrir eða hversu lengi þær geta varað. Greina verður verðáhættu frá fyrirtækjaáhættu, en þessir þættir, saman eða sitt í hvoru lagi, hafa áhrif á verð hlutabréfa með tilheyrandi áhættu fyrir fjárfesta.
Arðgreiðsluáhætta
Arður til hluthafa er háður ýmsum þáttum í rekstri fyrirtækja. Ákvörðun um útgreiðslu arðs er tekin á hluthafafundi. Ef fyrirtæki er í miklum vexti eða afkoma þess er háð óvissu kunna arðgreiðslur að minnka eða jafnvel falla niður. Þróist arðgreiðslur á verri veg en markaðsaðilar reikna með, getur það haft áhrif til lækkunar á verði hlutabréfa.
Vaxtaáhætta
Gengi hlutabréfa er einnig háð þróun markaðsvaxta. Þegar markaðsvextir hækka verður ávöxtun skuldabréfa samkeppnishæfari við hlutabréf og fjárfestar gera hærri ávöxtunarkröfu til framtíðar sjóðstreymis fyrirtækja.
Ekki er um tæmandi talningu að ræða og geta aðrir þættir en hér eru upp taldir haft áhrif á verðmæti viðkomandi fjármálagernings.
Áhætta tengd afleiðum
Sérhæfðir sjóðir kunna að hafa heimild til þess að nýta afleiður, skuldsetningu og skortsölu í fjárfestingarstefnu sinni. Með því að gera afleiðusamning, t.d. skortselja bréf, má annað hvort auka áhættu eða draga úr áhættu. Ef það er heimilt að nýta afleiður, skortsölu eða skuldsetningu má búast við því að sveiflur í ávöxtun verði meiri.
Afleiður eru fjármálagerningar sem breytast að verðgildi eftir verðmæti undirliggjandi eignar. Hin undirliggjandi eign kann að vera hlutabréf, skuldabréf, markaðsvísitala, vaxtastig, gjaldmiðill, hráefnisverð eða jafnvel önnur afleiða.
Aðrir áhættuþættir tengdir fjárfestingu í sjóðum
Vörslu- og uppgjörsáhætta
Rekstraraðili sjóðs felur vörsluaðila vörslu allra fjármálagerninga sjóðsins. Sú áhætta er fyrir hendi að slíkir fjármálagerningar tapist vegna vanrækslu, svika eða misnotkunar af hálfu vörsluaðila. Sú hætta er einnig fyrir hendi að mistök eigi sér stað við uppgjör sjóðs.
Seljanleikaáhætta
Sölutregða á markaði getur hindrað að sjóður geti selt fjármálagerning á markaðsverði. Við slíkar aðstæður kann að vera gegn hagsmunum sjóðs að selja fjármálagerninginn. Að auki kann kostnaðurinn af viðskiptunum að vera hærri en ella.
Frammistöðuáhætta
Frammistöðuáhætta er til staðar í sjóðum þar sem stýring hans telst virk og árangur sjóðs getur verið betri eða verri en viðmiðunarvísitölur á þeim verðbréfamörkuðum sem sjóður fjárfestir á. Sjóðstjóri hefur val um það hvernig hann fjárfestir innan ramma fjárfestingarstefnu.
Áhætta tengd smæð markaðar eða eignatengsla útgefanda verðbréfa
Íslenskur verðbréfamarkaður er smár í sniðum og því fylgir að kaupendur og seljendur einstakra verðbréfa eru oft fáir. Af þeim sökum getur verðmyndun á markaði verið ógegnsæ og óvirkari en gerist á stærri mörkuðum. Einnig geta eignatengsl verið á milli útgefenda verðbréfa sem getur leitt til þess að greiðslufall einstakra útgefenda hefur víðtækari áhrif en annars myndi verða.
Óskráð verðbréf
Fjárfestingar sjóðs í fjármálagerningum sem ekki hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði, t.d. hjá Kauphöll Íslands (Nasdaq Iceland), eru mun áhættusamari en fjárfestingar í skráðum fjármálagerningum. Í tilviki óskráðra fjármálagerninga er oft skortur á upplýsingum og gagnsæi lítið, m.a. liggja oft litlar eða engar áreiðanlegar upplýsingar fyrir um útgefendur þeirra. Einnig er seljanleiki og verðmyndun þeirra að jafnaði minni en skráðra fjármálagerninga, sem leiðir til þess að lengri tíma getur tekið að koma óskráðum fjármálagerningum í verð og meiri óvissa fylgir verðlagningu þeirra. Þá er rekstur óskráðra félaga oft og tíðum viðaminni en hjá skráðum félögum, en rekstur minni félaga er jafnan viðkvæmari fyrir breytingum í efnahagsumhverfi og/eða breytingum sem tengjast rekstri viðkomandi félags eða atvinnugrein þess, og/eða pólitískum aðstæðum sem hafa í för með sér efnahagslegar afleiðingar.
Ekki er um tæmandi talningu að ræða og geta aðrir þættir en hér eru upp taldir haft áhrif á verðmæti fjárfestingar í sjóðum.